154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:09]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða rörsýnina í stjórn landsins. Rörsýn er, eins og orðið gefur til kynna, mjög þröng sýn á viðfangsefnin og afleiðingar þeirra. Fáir virðast samt hafa jafn litlar áhyggjur af rörsýn og þeir sem nú stjórna. Hér hafa ráðherrar, hver á fætur öðrum, stigið fram og firrt sig ábyrgð á ýmsum málum með því að vísa henni yfir á stofnanir ríkisins og embættismenn og jafnvel samráðherra sína. Fyrirtæki sem rekið væri á þennan hátt væri vægast sagt lélegt fyrirtæki. Þar mætti t.d. sjá fyrir sér markaðsdeild sem bæri ábyrgð á að markaðssetja fyrirtækið og á auglýsingum. Þessi deild myndi þannig búa til flottar auglýsingar án tillits til þess hvort fyrirtækið gæti staðið undir fyrirheitum þeirra, hvort opnunartímar og vöruverð stæðust eða hvort vörurnar væru yfirleitt til. Allir væru samt sammála um að markaðsdeildin væri að standa sig gríðarlega vel, enda væri þetta hennar hlutverk. Innkaupadeildin í fyrirtækinu væri líka að gera frábæra hluti. Hún væri kannski ekkert endilega að leggja áherslu á að kaupa inn það sem markaðsdeildin væri að auglýsa eða það sem framleiðslan þyrfti á að halda, enda ekki hennar hlutverk að spá í slík mál. Framleiðsludeildin í fyrirtækinu er hins vegar mjög afturhaldssöm deild. Hún gerði fína áætlun árið 1970 og hefur ekki séð ástæðu til að breyta henni síðan. Hún er því að framleiða vörur sem fáir hafa áhuga á í gjörbreyttu þjóðfélagi en það er náttúrlega ekki hennar hlutverk að hafa áhyggjur af því, hún á bara að framleiða nóg og gerir það með stæl. Fjármáladeildin klórar sér aðeins í höfðinu yfir því að fyrirtækið sé ekki að skila því sem það hugsanlega gæti gert en svona hefur þetta alltaf verið svo ekki þýðir að amast við því og hún gerir það sem henni er ætlað að gera; færir bókhald og brosir, enda frumjöfnuðurinn fínn ef vel er skoðað og allar deildir að gera það sem þeim er ætlað að gera. Framkvæmdastjórinn telur það ekki sitt hlutverk að skipta sér af einu eða neinu, hún reynir ekki að samræma deildir eða neitt þess háttar því þá væri hún að fara út fyrir sitt verksvið. Hún hefur því ákveðið að hafa engar áhyggjur af neinu því það eru allir að gera það sem þeim er ætlað að gera.

Mér finnst íslenska ríkið vera rekið einhvern veginn svona. Þar tekur vinstri höndin það sem hægri gefur, eins og t.d. kemur ítrekað fram þegar almannatryggingar eru skoðaðar. Þar þýðir hækkun á einum stað yfirleitt skerðingu á öðrum. Engin verkstjórn og engin yfirsýn, bara skaðleg rörsýn.

Í fyrradag kynnti fjármálaráðherra fjárlagafrumvarp sitt næstum því án þess að minnast á verðbólguna, auk þess sem hann skautaði fimlega fram hjá stöðu heimilanna sem mörg hver eiga í gríðarlegum erfiðleikum. Já, fjölmargar fjölskyldur eiga í gríðarlegum fjárhagslegum erfiðleikum, ekki vegna verðbólgunnar, hún er ekki versti skaðvaldurinn heldur þessar gengdarlausu vaxtahækkanir sem Seðlabanki Íslands stendur fyrir og bankarnir nýta sér út í ystu æsar. Þar liggur skaðinn.

En hvorki verðbólga né vaxtahækkanir virðast koma fjármálaráðherra né ríkisstjórninni nokkuð við. Ráðherrar og ríkisstjórnin taka enga ábyrgð á stærsta vanda þjóðarinnar, Seðlabanka Íslands. Já, ég segi það og stend við það að Seðlabanki Íslands er stærsti vandi þjóðarinnar í dag. Hann beitir svo grófum og breiðvirkum meðulum í svokallaðri baráttu sinni gegn verðbólgunni að eftir hann liggja eingöngu rjúkandi rústir á meðan verðbólgan lifir enn góðu lífi. En fórnarkostnaður aðferða Seðlabankans kemur ríkisstjórninni ekki við. Ríkisstjórnin er nefnilega bara í markaðsmálunum. Hennar hlutverk er að sjá um auglýsingar og að fá okkur til að trúa því hversu gott og frábært allt sé, þvert á betri vitund, enda eru heimilin og staða þeirra víst ekki á hennar ábyrgð. Bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa margsagt að það sé hlutverk Seðlabankans að berjast gegn verðbólgunni og að hann beiti til þess þeim fjölmörgu tækjum sem hann hefur yfir að ráða. Ég spyr því: Hvaða fjölmörgu tækjum hefur Seðlabankinn beitt? Eina tækið sem Seðlabankinn hefur beitt svo einhverju nemi eru stýrivaxtahækkanir, sem er sú breiðvirkasta aðferð sem hægt er að beita og nákvæmlega sú sem bitnar verst á þeim sem síst skyldi. Næstum því eins og að nota fallbyssu til að drepa flugu eða kveikja í húsinu til að losna við köngulóarvef.

Þó að okkur hafi ítrekað verið sagt að vaxtahækkanir fari ekki að bera árangur fyrr en ári síðar eru vextir engu að síður hækkaðir á um sex vikna fresti, nú þegar 14 sinnum í röð. Vaxtahækkanirnar hafa þannig aldrei fengið tækifæri til að sýna ætlaðan árangur áður en þeim hefur verið beitt aftur. Ég veit ekki hvernig ástandið verður þegar ár er liðið frá þessum 14 vaxtahækkunum sem þegar er búið að beita. Þá hlýtur að drjúpa hér smjör af hverju strái, þótt það sé í hæsta máta ólíklegt að heimilin sem hafa greitt verðbólguna dýrari dómi en nokkrir aðrir muni nokkurn tímann fá að njóta þess.

Það er bláköld staðreynd að ansi margir græða stórkostlega á verðbólgunni. Hagur ríkissjóðs er betri en annars vegna verðbólgunnar, tekjur hans eru hundruðum milljarða meiri að góðum hluta vegna hennar. Bankar og lífeyrissjóðir fitna eins og púkinn á fjósbitanum vegna verðbólgunnar, enda er fjármunum heimilanna beint til þeirra með fullri blessun ríkisstjórnarinnar í bílförmun á færibandi. Afkoma stórra innflutningsfyrirtækja og heildsala er sú besta í áraraðir vegna verðbólgunnar og fyrirtæki á matvörumarkaði hagnast sem aldrei fyrr. Allt eru þetta aðilar sem geta með beinum og óbeinum hætti haft áhrif á verðbólguna, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar, með aðgerðum sínum því að hjá þessum aðilum liggur annaðhvort nær allt fjármagn landsins eða stjórn á vöruverði til neytenda, nema hvort tveggja sé. Þetta eru aðilarnir sem græða á verðbólgunni og hagnast á því að hún sé sem hæst. Heimilin og minni fyrirtæki þurfa að borga fyrir brúsann, svo mikið að þeim er við það að blæða út. En það kemur þessari ríkisstjórn ekki við því að verðbólgan er á ábyrgð Seðlabankans og ef hann rústar efnahag þúsunda heimila á meðan hann beitir sínum tækjum og tólum þá verður bara svo að vera. Getur rörsýnin verið skaðlegri en það?

Án þess að ávarpa aðfarirnar hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar margir látið hafa það eftir sér að það sé mesta hagsmunamál heimilanna að vinna bug á verðbólgunni. Þeir hafa einnig látið hafa það eftir sér að við séum öll í þessum sama báti saman. Hvorugt er rétt. Í fyrsta lagi eru bátarnir margir með mismunandi farrýmum. Á meðan sumir sigla þetta í lúxus eru aðrir á hriplekum kænum og við það að færast í þrælakistuna. Aðstæður þessara hópa fólks eru á engan hátt sambærilegar. Stærsta hagsmunamál heimilanna er ekki að lækka verðbólguna, þótt það væri vissulega gott. Stærsta hagsmunamál heimilanna er að eiga til hnífs og skeiðar ásamt því að geta greitt af húsnæði sínu. Fæði, klæði, húsnæði eru frumþarfir og stærstu hagsmunamál heimilanna. Með tækjunum sem Seðlabankinn beitir gegn verðbólgunni er verið að svipta heimilin þessum grunnþörfum.

Fjárhagslegt öryggi tugþúsunda fjölskyldna er fokið út í veður og vind. Alveg sama hversu varfærnar þær voru stendur ekkert eftir því að peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ekki hugmyndaflug í annað en að hækka stýrivexti og breyta öllum forsendum heimilisbókhaldsins þannig að engin leið er fyrir heimilin að standa undir sífellt vaxandi greiðslubyrði og höfuðstólshækkunum. Ég vil kalla þetta illvirki gegn heimilunum. Ríkisstjórnin, sem ætti að verja þau af öllum mætti, hefur selt þau í hendur bankanna sem þau vænta að muni bjóða upp á lausnir fyrir heimili í vanda, vanda sem er tilbúinn og í boði ríkisstjórnarinnar, vanda sem heimilin ættu ekki að þurfa að standa frammi fyrir. Vandinn er fyrir hendi eingöngu vegna þess að aðgerðirnar gegn verðbólgunni eru svo mikið verri en verðbólgan sjálf. Það er eitt stærsta hagsmunamál heimilanna að hvorki bankar né leigusalar geti hækkað afborganir eða leigu þannig þau standi ekki undir því. Heimilin myndu flest standa undir verðbólgunni því að 10% verðbólga hækkar framfærslukostnað heimilanna um nákvæmlega það, 10%, þannig að 100.000 verða 110.000 og 500.000 verða 550.000. En í staðinn hefur vaxtakostnaður af 40 millj. kr. láni sem var um 130.000 í janúar í fyrra hækkað um 230.000 kr., í 360.000 kr. á mánuði. Vaxtakostnaðurinn hefur sem sagt næstum því þrefaldast. Má ég þá frekar biðja um 10% verðbólguna, því að þetta ráða fáar fjölskyldur við til lengdar.

Það er verið að búa til langvarandi vanda sem mun enda með heimilismissi fyrir þúsundir fjölskyldna. Nú flýr fólk yfir í verðtryggð lán í hrönnum til að forðast að lenda í vanskilum. Léttirinn sem fyrst um sinn fylgir verðtryggðum lánum mun breytast í skelfingu þegar á líður. Þegar þetta verðbólguskeið verður minningin ein fyrir mörg okkar mun verðbólgan fyrst koma af alvöru niður á stórum hluta þeirra sem núna er verið að neyða yfir í verðtryggðu lánin. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því? Nákvæmlega ekki neitt. Það er ekkert um það í fjárlagafrumvarpinu. Þvert á móti treystir ríkisstjórnin á og og biðlar til bankanna að sýna samningsvilja við þá sem lenda í skuldavanda. Það að ríkisstjórnin skuli vera svo skyni skroppin að hún beini því til bankanna og vænti þess að þeir sýni heimilum í vanda einhvers konar samningsvilja er svo yfirgengilegt að það nær ekki nokkru tali. Fátt sýnir jafn vel í hversu litlum tengslum ríkisstjórnin er við raunveruleikann. Hún hugsar bara um hagtölurnar en ekki um raunveruleikann sem blasir við tugþúsundum. Ég get fullyrt, og vitnað bæði í eigin reynslu og fjölda annarra, að hjá bönkunum er enga miskunn eða samningsvilja að finna. Komi þeir króknum í heimili er það heimili dregið að landi án þess að nokkur velti tvisvar fyrir sér afdrifum þeirra sem fyrir slíkri aðför verða. Rörsýnin er nefnilega ekki bara hjá ríkisstjórninni. Hjá bönkunum heitir þessi rörsýn reyndar arðsemiskrafa fjárfesta og með því að ná henni upp fá þeir hrós úr öllum áttum, líka frá ríkisstjórninni sem ætlar að selja eigin hluti í bönkunum og vill því halda hlutabréfagenginu háu.

Virðulegi forseti. Ég get rætt þessa hluti lengi og frá mörgum fleiri hliðum eins og flestum í þessum sal er væntanlega ljóst, enda hef ég margoft gert það bæði hér og annars staðar. Ég mun að sjálfsögðu halda því áfram því að einhver þarf að halda uppi vörnum fyrir heimilin. En nú langar mig að ræða aðeins um aðrar afleiðingar þessara mála og þess hversu mörg heimili eiga erfitt með að ná endum saman. Sum þeirra lifa við hreina og klára fátækt. Þau eiga ekki fyrir mat út mánuðinn. Mörg önnur skrimta við fátæktarmörk frá mánuði til mánaðar. Þessum heimilum fer fjölgandi.

Mig langar að ræða fjárhagsáhyggjur og heilsufar. Getur verið að það sé eitthvert samspil á milli kulnunar, kvíða og þunglyndis, sem hefur vaxið alveg gríðarlega mikið á undanförnum árum, og þess að ná aldrei endum saman? Getur verið að stöðugar fjárhagsáhyggjur hafi bein áhrif á heilsufar fólks? Getur verið að kvíði og vonleysi unga fólksins okkar stafi m.a. af því að alast upp við fjárhagsáhyggjur foreldra sinna og hafa ekki trú á því að lífið bjóði þeim upp á nokkuð betra?

Á árunum eftir hrun varð gríðarleg aukning í því sem kallað er kulnun. Fjölmargir, ekki síst konur, brotnuðu niður og fóru í veikindaleyfi og sumir enduðu jafnvel á örorku. Við erum nefnilega þannig gerð að við stöndum oft af okkur storminn, því að þá er ekkert annað í boði, en svo kemur spennufallið eða kulnunin þegar það lygnir aftur. Og ef um viðvarandi örvæntingarástand er að ræða gefst fólk smám saman upp. Þegar fjárhagsáhyggjur eru viðvarandi ástand og fólk sér aldrei fram úr neinu og aldrei fram á bjartari daga þá hverfur vonin og þegar vonin hverfur kemur uppgjöfin.

Ég er hvorki læknir né sálfræðingur og geri mér grein fyrir að hér er um einföldun að ræða. Ég hef þó gengið í gegnum þetta sjálf og fundið hvernig það fjaraði smám saman undan mér þangað til ég var komin í kulnunarástand. Við erum að horfa á vaxandi kvíða og þunglyndi í samfélaginu ásamt kulnun. Peningar eru ekki allt og maður kaupir ekki hamingjuna fyrir peninga en fátt hefur þó meiri áhrif á líf okkar en fjárhagsáhyggjur.

Getur verið að það að hækka sífellt álögurnar á heimilin landsins komi með beinum hætti niður á heilbrigðiskerfinu? Af hverju er mun hærra hlutfall Íslendinga á þunglyndislyfjum en þekkist hjá öðrum þjóðum? Getur það verið af því að við þurfum að vinna lengri vinnudaga en aðrar þjóðir til að hafa í okkur og á, auk þess sem fótunum er reglulega kippt undan áætlunum okkar og öryggi? Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott. Eðlilega hafa sumir það betra en aðrir en það eiga allir að geta haft það gott og enginn á að þurfa að líða skort. Við erum eitt ríkasta land í heimi og ekki fleiri en í sumum hverfum úti í heimi. Hér á enginn að þurfa að kvíða mánaðamótum og velta fyrir sér hvort hann eigi fyrir mat út mánuðinn. Hér eiga allir að hafa efni á húsnæði því að þak yfir höfuðið er grundvallarmannréttindi. Fólk á ekki að þurfa að borga 60–90% tekna sinna í húsnæðiskostnað eins og um einhver forréttindi sé að ræða. Hér á enginn, hvorki Seðlabankinn, ríkisstjórnin eða bankarnir, að geta margfaldað greiðslubyrði heimila þannig að þau beri þess jafnvel aldrei bætur. Hér á aldrei að ógna heimilum fólks. Þau eiga að vera friðhelg. Allt er þetta samt að gerast og það er ekki tekið með nokkrum hætti á fjárhagsstöðu heimilanna í fjárlagafrumvarpinu eða í þingmálum þeim sem ríkisstjórnin ætlar að leggja fyrir á þessum þingvetri. Hún er að sinna öðru.

Virðulegi forseti. Rörsýnin er algjör og ráðherrunum líður vel í fílabeinsturninum. Heimilin blæða og bankarnir græða. Þannig vill þessi ríkisstjórn hafa þetta og er bara sátt, enda er frumjöfnuðurinn fínn. Húsið brennur en ríkisstjórnin er að rífast um litina á veggina í brennandi húsinu. — Rörsýn. Hlutverk Seðlabankans er að berjast við verðbólgu og þó svo að barátta hans skilji heimilin, undirstöðu þjóðarinnar, eftir í rúst er ríkisstjórnin sátt. Þetta nær ekki nokkurri einustu átt. Rörsýnin er gríðarlega stórt vandamál og við verðum að horfa á heildarmyndina. Það er staðreynd að aðgerðirnar gegn verðbólgunni eru að draga allan mátt úr þúsundum heimila og valda þeim langvarandi skaða, skaða sem mun koma víða niður á næstu árum.

Með fullri virðingu fyrir sjálfstæði Seðlabankans og mikilvægi þess að tryggja að misvitrir stjórnmálamenn geti ekki hækkað og lækkað gengið vegna hagsmuna útgerðarfyrirtækja þá getur ekki hafa verið ætlunin að gefa Seðlabankanum þau völd sem hann hefur nú yfir afkomu heimilanna. Það hlýtur að þurfa einhvern öryggisventil, einhvern sem horfir á heildarmyndina en tekur ekki handlegginn af við öxl vegna puttabrots af því að það er hans hlutverk að lækna handlegg.

Heimilin eru lungun í landinu. Ef við kæfum þau hefur það alvarlegar og langvarandi afleiðingar. Það gengur ekki að hópur fólks sem enginn hefur kjörið og ber enga pólitíska ábyrgð geti haft jafn mikil áhrif og raun ber vitni á afkomu heimila og fjölskyldna án þess að nokkur geti gripið inn í eða beri pólitíska ábyrgð. Ríkisstjórninni ber að horfa á heildarmyndina og sjá til þess að aðgerðir Seðlabankans bitni ekki jafn harkalega á heimilunum og raun ber vitni. Það er enn hægt að snúa af þessari braut og ég bið ykkur lengstra orða að gera það áður en skaðinn verður óbætanlegur.